Innlent

Vilja að gistináttaskatti verði frestað eða hann afnuminn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Erna Hauksdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Erna Hauksdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Samtök ferðaþjónustunnar skora á ríkisstjórn Íslands að beita sér fyrir því að fallið verði frá eða frestað gildistöku gistináttaskatts þar til raunhæfari lausn finnst. Þetta kemur fram í bréfi frá samtökunum sem hefur verið sent ríkisstjórninni.

Í bréfinu segir að skattstofninn sé óljós sem verði að teljast stangast á við grundvallarreglur skattalaga. Hann mun í besta falli ráðast af skilvísi gagna einstaklinga og fyrirtækja til Hagstofunnar, gagna sem fram að þessu hafi skilað sér misvel og víða illa. Þá segir að í umsögn samtakanna um upphaflegt frumvarp hafi verið lögð áhersla á að innheimta skattsins yrði einföld m.a. þannig að um gjald pr. gistinótt yrði að ræða. Innheimtan sé ekki lengur einföld og ljóst að skatturinn muni ýta undir svarta atvinnustarfsemi í greininni.

Þá segir í bréfinu að breytingar Alþingis á upphaflegu frumvarpi samræmist ekki samkeppnisreglum þar sem þær feli í sér mismunun samkeppnisaðila og brjóti þannig beinlínis gegn jafnræðisreglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×