Innlent

Jón Baldvin í Litháen: 20 ára sjálfstæðisafmæli

Jón Baldvin er í miklum metum í Litháen
Jón Baldvin er í miklum metum í Litháen Mynd: Stefán Karlsson

Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra ávarpaði litháenska þingið í dag, í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá því landið hlaut sjálfstæði frá Sovétríkjunum.

Jón Baldvin nýtur mikillar virðingar í Eystrasaltsríkjunum en fyrir frumkvæði hans varð Ísland fyrsta ríkið til að viðurkenna sjálfstæði ríkjanna hinn 25. ágúst 1991.

Í Fréttablaðinu í dag lýsir Jón Baldvin aðdraganda þessa. Tilraun var gerð til valdaráns í Sovétríkjunum dagana 19. - 21 ágúst 1991, þegar meðlimir í stjórnmálanefnd sovéska Kommúnistaflokksins og herforingjar einangruðu Mikahil Gorbatsjov sovétleiðtoga í sumarhúsi hans.

Hinn 22. ágúst var Jón Baldvin staddur á NATO fundi og hvatti þar til þess að NATO ríkin viðurkenndu sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna en því var mætti með fálæti. Þremur dögum síðar voru utanríkisráðherrar Eistlands, Lettlands og Litháen komnir til Íslands til að vera viðstaddir athöfn í Hofða þar sem Ísland viðurkenndi sjálfstæði ríkjanna, fyrsta allra ríkja í heiminum.

Í dag er þess minnst í Vilnius höfuðborg Litháens að 20 ár eru liðin frá því landið hlaut sjálfstæði og er Jón Baldvin heiðursgestur landsins að því tilefni.

Hann ávarpaði litháenska þingið í morgun. Jón Baldvin var eini utanríkisráðherra vestræns ríkis sem svaraði kalli Litháa þegar sovéski herinn reyndi að kæfa sjálfstæðisbaráttuna með valdi í janúar 1991; mætti á staðinn og varð vitni að atburðarrásinni.

Jón Baldvin er því hafður í miklum metum í landinu og honum til heiðurs hefur torg í höfuðborginni Vilnius til dæmis verið nefnt Íslandstorg.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×