Lífið

Tveir í tjaldi á leynieyju

Margeir Ingólfsson og Jón Atli Helgason ætla að spila á tónlistarhátíðinni Secret Island Nation en hún er öðruvísi en gengur og gerist.
Margeir Ingólfsson og Jón Atli Helgason ætla að spila á tónlistarhátíðinni Secret Island Nation en hún er öðruvísi en gengur og gerist.
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég er spurður hvort ég hafi reynslu af pólitísku starfi þegar ég er beðinn um að spila," segir plötusnúðurinn Margeir Ingólfsson.

Hann er á leiðinni til Svíþjóðar í nótt þar sem hann tekur þátt í tónlistarhátíðinni Secret Island Nation, ásamt Jóni Atla Helgasyni. Áfangastaðurinn er leyndarmál en Margeir veit þó að hann er einhvers staðar á vesturströnd Svíþjóðar. Hægt er að kynna sér málið nánar hér á heimasíðu hátíðarinnar.

„Þessi tónlistarhátíð er haldin á hverju ári en þetta er í fyrsta sinn sem við erum með," segir Margeir en hátíðin gengur út á að búa til lítið samfélag og hlusta á góða teknótónlist saman.

„Fólki er safnað saman frá Norðurlöndunum og Þýskalandi á eyjuna. Fyrsti dagurinn fer í það að stofna nýtt lýðveldi og skrifa stjórnarskrá. Þess vegna var ég spurður um pólitíska fortíð mína," segir Margeir en það á að stuðla að því að gestir lifi í sátt og samlyndi þessa fjóra daga sem hátíðin varir. „Ég hef komið víða við á lífsleiðinni og get eflaust hjálpað til við að skrifa hressandi stjórnarskrá. Svo leysist þetta upp í eitt stórt dansiball með tónlistaratriðum þar sem við spilum."

Margeiri var boðið að taka þátt í hátíðinni af bókaranum sínum í Þýskalandi og dró Jón Atla með sér. „Þetta er örlítið öðruvísi en að fara að spila á klúbbi úti í heimi. Ég er að pakka ofan í göngubakpokann og svo verðum við Jón Atli saman í tjaldi. Tveir í tjaldi á leynieyju," segir Margeir og hlær.

-áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.