Óvíst er hvort jólin verði hvít í höfuðborginni. Næsta vika verður umhleypingasamari í veðri en undanfarið, þá sér í lagi sunnanlands.
Meiri líkur eru á hvítum jólum á norðan-, vestan- og austanverðu landinu en fyrir sunnan, en Einar Magnús Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir þó að ekki sé hægt að spá fyrir með vissu um snjóalög.
„Það eru meiri líkur á hvítum jólum fyrir norðan heldur en fyrir sunnan, en þetta er allt saman spurning enn þá,“ segir Einar. „Það er ekki hægt að segja að það séu litlar líkur á hvítum jólum í Reykjavík, en næsta vika verður umhleypingasamari.“
Einar segir spána fyrir næstu helgi nokkuð fína. Dagurinn í dag og í kvöld verður víðast hvar góður, þó er hætta á éli með kvöldinu. Spáð er bjartviðri á Austurlandi og víðar á morgun, en á sunnudag koma skil upp að landinu með slyddu eða snjókomu. Þá gæti jafnvel farið að rigna sunnanlands. - sv
Óvíst með hvít jól í Reykjavík
