Innlent

Yngstu voru einungis fjórtán ára

Vinnueftirlitið hefur vísað til lögreglu fjórum fyrirtækjum sem létu ungmenni vinna of mikið. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Fréttablaðið/GVA
Vinnueftirlitið hefur vísað til lögreglu fjórum fyrirtækjum sem létu ungmenni vinna of mikið. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Fréttablaðið/GVA
Vinnueftirlitið hefur vísað til lögreglu málum fjögurra fiskvinnslufyrirtækja meðal annars vegna brota á reglugerð um vinnu barna og unglinga.

Brotin áttu sér stað í fyrrasumar en þrjú fyrirtækjanna eru á landsbyggðinni og eitt á höfuðborgarsvæðinu. Hin meintu brot felast meðal annars í því að fyrirtækin hafi „skipulagt eða látið það viðgangast“ að börn undir 18 ára aldri hafi unnið næturvinnu, unnið lengur en þeim var heimilt og að þau hafi ekki notið lögbundins hvíldartíma, segir á vef stofnunarinnar.

Samkvæmt nánari upplýsingum frá Vinnueftirlitinu voru ungmennin allt niður í 14 ára.

Að mati Vinnueftirlitsins er um að ræða „umfangsmikil brot“ á lögum og reglum.

Í þremur fyrirtækjanna komu málin upp á yfirborðið í tengslum við vinnuslys hjá börnum og unglingum sem unnu þar, en í fjórða tilvikinu var um að ræða grun um brot og því hafi verið kallað eftir nánari upplýsingum.

Við brotum sem þessum liggja sektir sem renna í ríkissjóð.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×