Enski boltinn

Balotelli ætlar ekki að fagna eins aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Mario Balotelli segir að „af hverju ég“-fagnið verði ekki endurtekið en helgin var ansi skrautleg hjá kappanum.

Balotelli komst í fréttirnar morguninn sem að lið hans, Manchester City, vann 6-1 sigur á Manchester United um helgina.

Þá voru hann og vinir hans næstum búnir að kveikja í heimili hans eftir að hafa verið að leika sér með flugelda á baðherberginu.

Balotelli hefur greint frá því að það var búningastjóri City, Les Champan, sem átti hugmyndina að bolnum sem Balotelli sýndi eftir að hann skoraði fyrsta mark sinna manna í leiknum.

„Það eru margar ástæður fyrir því sem ég gerði en ég ætla að leyfa fólki að ráða úr þessu. Ég er viss um að margir geti ráðið gátuna,“ sagði Balotelli við enska fjölmiðla.

„Chappy, búningastjórinn okkar, gerði þetta fyrir mig. Ég sagði honum orðin og hann prentaði þetta á bolinn fyrir mig. Hann Chappy er góður gaur - einn sá besti.“

„En ég mun ekki gera þetta aftur því þá mun ég fá áminningu í hverri einustu viku. Þetta var bara í þetta eina skiptið fyrir United.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×