Innlent

Megn óánægja á meðal frjálslyndra jafnaðarmanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Megn óánægja ríkir á meðal hægrisinnaðra Samfylkingarmanna með hlut Árna Páls.
Megn óánægja ríkir á meðal hægrisinnaðra Samfylkingarmanna með hlut Árna Páls. mynd/ vilhelm.
Megn óánægja ríkir á meðal frjálslyndra jafnaðarmanna, það er að segja þeirra hægrisinnuðustu í Samfylkingunni, með þá ákvörðun leiðtoga ríkisstjórnarinnar, þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar, að víkja Árna Páli Árnasyni úr embætti efnahags- og viðskiptaráðherra.

Félag frjálslyndra jafnaðarmanna, sem á fulltrúa í flokksstjórn Samfylkingarinnar, hittist í gær og fór yfir stöðu mála. Þar var Árni Páll Árnason sjálfur um stund. Fundurinn var ekki boðaður sérstaklega til að ræða stöðuna, heldur var um að ræða jólaboð sem hafði verið fyrirfram ákveðið og tilviljun ein réð því að það bar upp á sama dag og fréttir af breytingum í ríkisstjórninni bárust fjölmiðlum. Þeir félagar í Félagi frjálslyndra jafnaðarmanna sem Vísir hefur talað við vilja ekkert láta uppi um hvað fór fram á fundinum, en segja að beðið sé eftir því hvað Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, muni segja á flokkstjórnarfundinum í dag.

Á meðal þeirra sem aðild eiga að Félagi frjálslyndra jafnaðarmanna er Margrét Björnsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, auk fleiri manna.

Samkvæmt heimildum Vísis er sú ákvörðun að víkja Árna Páli ekki síst til komin vegna samskiptaörðugleika Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra og Árna Páls í ríkisstjórn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×