Innlent

Örn innkallar Breiðholt og Kópavog

Örn Árnason
Örn Árnason Mynd/Valgarður
Flugeldasala Arnar Árnasonar, Bomba.is, neyðist til að innkalla tvær gerðir af skottertum sem hafa verið í sölu fyrir áramótin. Terturnar sem um ræðir kallast Kópavogur og Breiðholt.

„Þessar tertur springa hraðar en æskilegt er. Það fer allt á fullt og eflaust mikil ljósadýrð og fyndið og skemmtilegt," segir Örn. „En ég vil ekki taka neina sénsa. Þetta gæti verið hættulegt og ég vil vera ábyrgur flugeldasali. Ég stend og fell með mínum vörum."

Örn prófar sjálfur sína skotelda. Þegar umræddum tertum var prufuskotið fannst honum þær springa með undarlegum hraða. Þeir sem hafa keypt slíkar tertur eru beðnir um að skila þeim í sölustöð Bombu.is, sem er til húsa að Víkurhvarfi 6. Þeir geta þá annað hvort fengið endurgreitt eða aðra tertu á svipuðu verði. Starfsfólk Bombu.is biðst velvirðingar á þessu.

Aðrar tegundir skotterta frá fyrirtækinu eru hins vegar í lagi. Örn segir söluna fara hægt af stað í ár. „Bomba.is er ekki stór aðili á þessum markaði. Við sérhæfum okkur bara í skottertum."

Lögreglan sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem hún benti fólki á gallann í flugeldum Arnar. Hún notaði einnig tækifærið til að minna fólk á að óheimilt er að breyta skoteldum á nokkurn hátt. Við meðferð skotelda skal ítrustu varúðar gætt og farið eftir skráðum leiðbeiningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×