Innlent

Hægt að taka strætó frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hægt verður að ferðast um Suðurland með strætó, allt frá Reykjavík og austur á Höfn í Hornafirði frá og með 2. janúar næstkomandi. Þetta er liður í stórfelldri stækkun þjónustusvæðis Strætó bs. í samstarfi við Samtök sunnlenskra sveitarfélaga (SASS). Eitt samtengt leiðakerfi verður allt frá Höfn í Hornafirði og til Reykjavíkur, um uppsveitir Árnessýslu, niður í Þorlákshöfn og Landeyjahöfn. Þessi breyting felur m.a. í sér að fleiri Sunnlendingar eiga möguleika á að sækja vinnu til höfuðborgarsvæðisins og gagnkvæmt.

Fargjöld verða lægri og tímaáætlanir leiðanna verða samræmdar, svo farþegar komist hraðar á milli staða. Suðurlandi er skipt í mismunandi gjaldsvæði og fargjöld miðast við fjölda gjaldsvæða sem farið er um. Tímatöflur allra nýju leiðanna verða aðgengilegar á vef Strætó fyrir áramót og þar verður einnig að finna reiknivél sem reiknar út fargjöld með tilliti til lengdar ferðar og mismunandi fargjaldaforma.

Hagkvæmast er fyrir viðskiptavini að kaupa kort og farmiða á vef Strætó en einnig verður hægt að staðgreiða vagnstjórum farið beint með peningum, debet- eða kreditkorti. Ennfremur eru farmiðar seldir á sölustöðum Strætó á Hlemmi og í Mjódd og á bæjarskrifstofum flestra þeirra sveitarfélaga sem ekið er til.

Akstur hefst á fimm nýjum leiðum í ársbyrjun; leið 51 (Mjódd - Hveragerði - Selfoss - Hvolsvöllur - Vík - Skaftafell - Höfn), leið 52 (Reykjavík - Hveragerði - Selfoss - Hella - Hvolsvöllur - Landeyjahöfn), leið 71 (Hveragerði - Þorlákshöfn - Hveragerði), leið 72 (Selfoss - Borg - Laugarvatn) og leið 73 (Selfoss - Flúðir). Á sumum þessara leiða (72 og 73) þarf að bóka ferð með minnst tveggja tíma fyrirvara í síma 540 2700 og á leið 51 þarf að panta far milli Víkur og Hafnar fyrir kl. 18 daginn áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×