Innlent

Vill ekki horfa á eftir báðum úr ríkisstjórn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir og Árni Páll eru bæði Kópavogsbúar. Óvíst er með stöðu þeirra beggja í ríkisstjórninni.
Katrín Júlíusdóttir og Árni Páll eru bæði Kópavogsbúar. Óvíst er með stöðu þeirra beggja í ríkisstjórninni. mynd/ anton.
„Mér finnst það vissulega ótrúlega mikið á okkur skorið hér í kjördæminu ef báðir ráðherrarnir og báðir Kópavogsbúarnir fara út úr ríkisstjórn," segir Ýr Gunnlaugsdóttir, formaður Samfylkingarfélagsins í Kópavogi.

Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að Árni Páll Árnason sé á leið út úr ríkisstjórn á morgun. Staða Katrínar Júlíusdóttur er óljósari miðað við ráðherrakapalinn sem sagt var frá á Vísi og í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag, en öruggt er að hún mun ekki gegna ráðherraembætti til langs tíma á næsta ári því hún gengur með tvíbura og mun senn fara í barneignaleyfi. Ekki er fulljóst hvort hún muni ganga aftur að ráðherraembætti þegar fæðingarorlofi lýkur. Bæði eiga þau það sameiginlegt að vera úr suðvesturkjördæmi og þau eru reyndar bæði Kópavogsbúar.

Ýr, sem situr í flokksstjórn Samfylkingarinnar sem formaður Samfylkingarfélagsins í Kópavogi, segist engar upplýsingar hafa um stöðu mála aðrar en þær sem hún hafi fengið úr fjölmiðlum. Setja verði þann fyrirvara við skoðanir hennar á málinu. En miðað við lýsingarnar úr fjölmiðlum hugnast henni málið ekki. „Það er auðvitað búið að kalla eftir breytingum, en að báðir ráðherrarnir fari og þau bæði búin að standa sig með svona miklum sóma," segir Ýr.

Ýr segir að töluverður fjöldi fólks eigi seturétt á flokkstjórnarfundi en býst við því að mætingin verði dræm, bæði vegna illrar færðar og vegna tímasetningarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×