Innlent

Mest vonbrigðin með Jón og Árna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Þetta eru nú kannski þeir ráðherrar sem ég hef orðið fyrir hvað mestum vonbrigðum með sem eru að víkja," segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, um væntanleg ráðherraskipti. Eins og fram hefur komið eru Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, á leið úr ríkisstjórn. Margrét segist ekki treysta sér til að fullyrða um það hvort eitthvað betra komi í staðinn.

Margrét segir alls óvíst hvort Hreyfingin muni verja ríkisstjórnina falli í framtíðinni, komi upp sú staða að þeirra verði þörf. Eins og kunnugt er fóru slíkar viðræður um stuðning Hreyfingarinnar fram í vikunni og fyrir jól. „Það verður eiginlega bara að koma í ljós. Það var ekkert rætt en við skildum á vinsamlegum nótum," segir Margrét. Hreyfingin muni halda áfram að styðja góð mál, óháð því hver leggi þau fram. „Það verður bara að koma í ljós hvort það kemur eitthvað út úr þessu," segir Margrét.

Í viðræðum Hreyfingarinnar við leiðtoga ríkisstjórnarinnar hingað til hefur helst hefur borið í milli þegar kemur að skuldamálunum. Margrét segir að þar hafi Hreyfingin talað fyrir almennum aðgerðum en stjórnarflokkarnir fyrir sértækum aðgerðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×