Innlent

Sex hundruð tonn af flugeldum sprengd

Mynd/Pjetur
Áætlað er að um 600 tonnum af flugeldum verði skotið á loft í dag og kvöld. Þyngdin jafngildir um 200 Land Cruiser jeppum. Neytendastofa bendir á að framleiðendur og dreifingaraðilar flugelda beri skaðabótaábyrgð samkvæmt íslenskum lögum um skaðsemisábyrgð ef varan er gölluð.

Í lögunum segir að samanlagt geti bætur vegna líkamstjóns, þar með talin dauðaslys, vegna vöru sem haldin er framleiðslugalla numið allt að 11,5 milljörðum íslenskra króna, eða um 70 milljónum evra.

Á næsta ári verði ný tilskipun Evrópusambandsins um flugelda innleidd hér á landi. Þar verða gerðar auknar kröfur varðandi framleiðslu þeirra, merkingar, innihald og leiðbeiningar. Neytendasamtök í Danmörku, þar sem reglurnar eru í gildi, létu gera könnun á flugeldum og í ljós kom að 27 eintök af 56 flugeldum uppfylltu ekki kröfur.

Bomba.is þurfti að innkalla tvær gerðir af skottertum vegna framleiðslugalla. Terturnar bera nöfnin "Kópavogur" og "Breiðholt" og eru þeir sem fengið hafa þessar tertur beðnir um að skila þeim í Víkurhvarf 6 þar sem Bomba.is er til húsa. Neytendur geta annaðhvort fengið endurgreitt eða aðra tertu að sambærilegu verðgildi.

„Terturnar springa mun hraðar heldur en við áttum von á," segir Örn Árnason, leikari og flugeldasali. "Það á ekki að vera nein hætta af þessu ef menn eru í hæfilegri fjarlægð. En hröðunin getur verið það mikil að kúlurnar þvælast hver fyrir annarri og springa þá ekki í nógu mikilli hæð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×