Innlent

Sautján brennur á höfuðborgarsvæðinu

Áramótabrennur verða venju samkvæmt haldnar víða um land á gamlárskvöld. Eldvarnareftirlit Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu hefur veitt leyfi fyrir sautján brennum á starfssvæði sínu og þá verða brennur í flestum öðrum bæjarfélögum.

Kveikt verður á fyrstu brennunni á höfuðborgarsvæðinu klukkan þrjú á gamlársdag en það er lítil brenna á vegum Fisfélagsins. Verður brennan við Úlfarsfell skammt ofan við Bauhaus húsið.

Veðurspá fyrir áramótin er hin ágætasta þótt skúrir og éljagangur gætu gert vart við sig á suðvesturhorni landsins. Árni Sigurðsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir ekkert benda til annars en að hægt verði að halda gleðileg áramót.

„Veðrið verður tiltölulega milt miðað við árstíma þannig að fólk ætti ekki að forðast það að fara út í þessu veðri, alls ekki," segir Árni. "Á höfuðborgarsvæðinu er spáð suðvestanátt sem verður þó ekki mjög stíf. Þá gæti gengið á með éljum og skúrum þar sem spáð er hita yfir frostmarki yfir daginn."

Spurður hvernig veðrið verði með tilliti til flugeldasprenginga svarar Árni: "Ég held að það verði alveg þokkalegt. Það er sérstaklega gott um landið norðan- og austanvert þar sem verður bjart yfir og tiltölulega hægur vindur. En það ætti líka að vera fínt hér í borginni. Það hefur í það minnsta oft verið verra."

Í Reykjavík verða á gamlársdag tíu brennur á sínum hefðbundnu stöðum. Í Kópavogi verða tvær brennur en ef vindátt verður óhagstæð þá kann brennan í Boðaþingi við Elliðavatn að falla niður. Þá verður ein brenna hver í Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, á Álftanesi og Seltjarnarnesi, á sínum hefðbundnu stöðum.

Á Akranesi verður brenna í Kalmansvík og þá verða fjórtán brennur á Vestfjörðum, þeirra stærst við Hauganes í Skutulsfirði.

Á Akureyri verður brenna við Réttarhvamm og á Egilsstöðum verður brenna á nesinu norðan við Blómabæ.

Í Árborg verða þrjár brennur, þeirra stærst við Selfossflugvöll. Þá heldur ÍBV sína árlegu brennu í Vestmannaeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×