Innlent

Ísland getur verið í fremstu röð

JHH skrifar
Ísland getur skipað sér í fremstu röð á alþjóðavettvangi sem grænt hagkerfi, sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í áramótaávarpi sínu í kvöld. Hún sagði að lega okkar á Norðurslóðum kallaði á forystu Íslendinga í þessum efnum og nágrannalöndin og aðrar heimsálfur horfi nú í auknum mæli til þessa svæðis.

„Norðurslóðir, sem eru okkar nærumhverfi, eru að taka miklum breytingum sökum hlýnandi loftslags og vaxandi efnahagsumsvifa. Ef rétt er að staðið munu fylgja breytingunum ýmis tækifæri fyrir Íslendinga svo sem á sviði orkumála, auðlindanýtingar og norðurslóðasiglinga. Þá stöndum við ásamt öðrum norðurskautsríkjum frammi fyrir þeirri áskorun að tryggja verndun og sjálfbæra nýtingu viðkvæmrar náttúru svæðisins. Hagsmunirnir eru augljósir og ábyrgðin sömuleiðis mikil," sagði Jóhanna.

Þá sagði Jóhanna að það hefðu verið merk tímamót þegar Alþingi samþykkti einróma fyrr á þessu ári í fyrsta skipti heildstæða stefnu í málefnum norðurslóða, sem miðar að því tryggja hagsmuni Íslands og efla tengsl og samstarf við aðrar þjóðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×