Innlent

Söfnuðu 15 milljónum fyrir krabbameinssjúk börn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri SKB ásamt hlaupahópnum við lokauppgjör söfnunarinnar.
Óskar Örn Guðbrandsson, framkvæmdastjóri SKB ásamt hlaupahópnum við lokauppgjör söfnunarinnar.
Hjónin Signý Gunnarsdóttir og Sveinn Benedikt Rögnvaldsson söfnuðu alls rúmum 15 milljónum í átakinu Hetjur fyrir hetjur - Meðan fæturnir bera mig. Söfnuninni lauk endanlega nú í desember, en til að vekja athygli á málefninu hlupu hjónin hringinn í kringum landið.

Signý og Sveinn eru foreldrar Gunnars Hrafns, 5 ára, sem greindist með bráðahvítblæði í janúar 2010, og Regínu Sjafnar, sem er 8 ára. Hugmynd Signýjar og Sveins var að þakka fyrir þann góða stuðning sem þau fengu meðan á erfiðri meðferð sonar þeirra stóð og vildu þau jafnframt gefa til baka með þeim hætti að aðrir gætu áfram notið þessa góða stuðnings.

Signý og Sveinn, eða mamman og kletturinn, eins og Signý kallaði þau í skrifum sínum fyrir hlaupið, fengu systur klettsins og eiginmann hennar, þau Ölmu Maríu Rögnvaldsdóttur „mágkonuna" og Guðmund Guðnason „maraþonmanninn", í lið með sér. Mikill mannfjöldi safnaðist saman þegar hópurinn hélt af stað frá Barnaspítala Hringsins þann 2. júní í sumar og hljóp með fjórmenningunum fyrsta spölinn. Strax á fyrsta hlaupadegi var ljóst að söfnunarátakið var orðið einstakt og hafði þá þegar safnast rúmlega ein milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×