Innlent

"Þetta er eins og tifandi tímasprengja hérna“

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Opinberir lífeyrissjóðir eru tifandi tímasprengja vegna mikils fjárhagsvanda sem við þeim blasir að mati hagfræðings. Útlit sé fyrir að tveir stærstu sjóðirnir tæmist innan fárra ára ef ekkert verður að gert.

Ólafur Ísleifsson hagfræðingur og lektor við Háskóla Íslands dregur upp dökka mynd af lífeyrissjóðskerfi opinberra starfsmanna í nýjasta hefti veftímaritsins Stjórnmál og Stjórnsýsla en samkvæmt tryggingafræðilegum útreikningum eru framtíðarhorfur sjóðanna slæmar.

„Stærsti lífeyrissjóðurinn er LSR, hann mun tæmast eftir í kringum tíu ár. Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga nokkrum árum þar í frá, þannig að þetta er eins og tifandi tímasprengja hérna," segir Ólafur.

Ólafur segir raunávöxtunarkröfu lífeyrissjóða of háa miðað við þá fjárfestingakosti sem eru í boði eru, og því sé hallinn í raun meiri en opinberar tölur gefi til kynna. Sjálfur telur hann ekki marga góða kosti í boði til að styrkja stöðu sjóðanna, en sá sem liggi beinast við sé að ríkissjóður greiði aukalega inn í þá.

„Þær þurfa þá að koma helst sem allra fyrst til að þær geti ávaxtast í sjóðnum þangað til að þessum tímamótum kemur," segir Ólafur og bendir á að taka þurfi á vandanum strax. „Vegna þess að vandinn hverfur ekki og minnkar ekki eftir því sem að dregst að takast á við hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×