Innlent

Flokkum jólasorpið og mokum frá ruslatunnum

Sorphirðumenn að störfum
Sorphirðumenn að störfum Mynd/GVA
Sorphirða Reykjavíkurborgar hvetur fólk til að halda leiðum að sorpskýlum opnum og flokka jólasorpið til endurvinnslu.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að um hátíðarnar fyllist sorpílát yfirleitt hjá flestum. Af því tilefni vill Sorphirða Reykjavíkurborgar ítreka að mikilvægt sé að aðgengi að ruslafötum og sorpskýlum sé með besta móti svo sorphirðan gangi snuðrulaust fyrir sig.

Spáð sé snjókomu um jólin og því eru íbúar beðnir um að moka snjó svo hægt sé að hirða sorpið.

Erfitt getur verið fyrir sorphirðumenn borgarinnar að draga fullar tunnur í vondri færð en það er enn erfiðara um hátíðarnar þegar sorpílátin eru yfirfull.

Guðmundur B. Friðriksson hjá Umhverfis- og samgöngusviði segir í tilkynningu að starfsmenn leggi sig fram um að halda áætlun en veðrið geti sett strik í reikninginn.

„Mikið magn umbúða leggst til um jólin sem ætti helst ekki að fara í sorptunnur fyrir almennt heimilissorp. Guðmundur hvetur fólk til að flokka jólasorpið og koma því til SORPU sem tekur við pappír, pappa, plasti og málmum til endurvinnslu. Nú er einnig hægt að henda öllum málmum, t.d. niðursuðudósum, álpappír og álbökkum beint í sorptunnur fyrir heimilissorp. Mikilvægt er að það fari ekki með í plastpoka sem innihalda heimilissorp heldur beint í tunnuna,“ segir í tilkynningu.

Íbúar geta séð þá daga sem leiðin þarf að vera greið að sorptunnunum með því að slá inn götuheiti í sorphirðudagatali Reykjavíkurborgar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×