Innlent

Eldri borgarar vilja viðræður vegna ákvörðunar Kjararáðs

Alþingi.
Alþingi.
Landsamband eldri borgara óska eftir nýjum viðræðum við stjórnvöld í ljósi þess Kjararáð hefur ákveðið að draga til baka launalækkanir þeirra sem heyra undir Kjararáð, en það eru meðal annars þingmenn og ráðherrar. Laun þeirra lækkuðu um 7,5 til 15 prósent 1. janúar 2009.

Í yfirlýsingu frá stjórn landssambands eldri borgara segir að ákvörðun Kjararáðs hljóti að vita á gott eða með öðrum orðum að nú verði drifið í því að draga til baka þær launalækkanir sem eldri borgarar urðu fyrir hinn 1. janúar 2009 og 1. júlí 2009. Dæmi eru um að eftirlaunafólk missti 20% tekna sinna.

Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsingu LEB í heild sinni.

Í fréttum í dag hefur verið greint frá því að Kjararáð hafi úrskurðað að draga til baka launalækkanir þeirra sem heyra undir Kjararáð. Það eru m.a. þingmenn og ráðherrar, en laun þeirra lækkuðu um 7,5-15% 1. Janúar 2009. Þetta hlýtur að vita á gott eða með öðrum orðum að nú verði drifið í því að draga til baka þær launalækkanir sem eldri borgarar urðu fyrir hinn 1. janúar 2009 og 1. júlí 2009.

Á þessum tíma var ákveðið að fjármagnstekjur skyldu nýttar 100% til frádráttar við útreikning bóta og að lífeyrissjóðstekjur skyldu sæta sömu reikningsreglu.

Við þetta varð umtalsverð lækkun á lífeyri mjög margra lífeyrisþega. Margir lífeyrisþegar misstu allan sinn grunnlífeyri. Dæmi eru um að eftirlaunafólk missti 20% tekna sinna. Undanfarnar vikur höfum við í Landssambandi eldri borgara í viðtölum við nefndir Alþingis ítrekað bent á þær skerðingar sem við höfum mátt sæta á undanförnum árum og talið að þar sem nú væri von betri tíðar í efnahagsmálum væri komin röðin að okkur og að þær skerðingar sem við höfum mátt sæta undanfarin ár væru dregnar til baka. Við höfum því miður ekki náð þeim árangri sem við vildum, það sýna nýsamþykkt fjárlög.

En í ljósi úrskurðar kjararáðs hljótum við að gera ráð fyrir að nú sé röðin komin að okkur. Við munum því óska eftir nýjum viðræðum við stjórnvöld í ljósi þessa.

F.h. Landssambands eldri borgara. 23. des.2011. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður LEB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×