Innlent

Ofsaveður á aðfangadag

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Flug- og skipfarþegar hafa flýtt ferðum sínum í dag vegna ofsaveðurs sem spáð er á morgun, aðfangadag. Þá gæti sjókoma komið í veg fyrir að einhverjir landsmenn komist í messu á morgun.

Spáð er slæmu veðri og stormi um allt land á morgun. Strax í fyrramálið verður orðið hvass sunnantil á landinu og nokkur úrkoma. Veðrið gengur svo yfir landið og á hádegi verður orðið mjög hvasst á vestanverðu landinu öllu. Þá fer að kólna og élja. Austanlands verður veðrið verst þegar jólunum verður hringt inn klukkan sex. Þá gætu vindhviður þar farið upp í 40 metra á sekúndu. Ekkert ferðaveður verður á landinu á morgun og ólíklegt er að Herjólfur sigli. Haft var samband við alla farþega sem áttu bókað með skipinu á morgun og þeim reddað fari í dag.

Nóg var um að vera hjá Flugfélagi Íslands í dag þar sem farnar voru nítján ferðir með á annað þúsund farþega. Tvísýnt er þó hvort að hægt verði að fljúga á morgun. Hafdís Sveinsdóttir, vakstjóri hjá Flugfélagi Íslands, segir að fjórar flugferðir séu á áætlun á morgun. Farþegum hafi verið boðið að fljúga frekar í dag og sumir hafi þegið það.

Veðrið á að byrja að ganga niður seinnipartinn á morgun á vestanverðu landinu. Þeir sem ætla í kirkjugarða á suðvesturhorninu ættu að geta gert það eftir fjögur. Snjókoma og skafrenningur fylgir ofsaveðrinu og gæti það komið í veg fyrir að einhverjir komist í messu á morgun þar sem Vegagerðin hættir að moka síðdegis eða klukkan fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×