Innlent

Þjóðin að rétta úr kútnum

Í Kringlunni í dag.
Í Kringlunni í dag. Mynd/egill
Kaupmenn telja þjóðina vera að rétta úr kútnum og það skili sér í jólaversluninni í ár. Raftæki eru vinsæl fyrir jólin en sala á fötum er nokkuð minni en í fyrra.

Kaupmenn eru almennt nokkuð brattir og ánægðir með jólaverslunina sem þeir segja hafa gengið betur í ár en í fyrra.

„Mjög margir eru að sjá þetta tíu eða fimmtán prósent yfir. Aðrir á svipuðu róli en kaupmenn eru bara yfirleitt þessa dagana gríðarlega kátir með söluna," segir Margrét Kristmannsdóttir hjá Samtökum verslunar og þjónustu.

Rannsóknarsetur verslunarinnar birti í gær könnun á jólaverslun í desember hjá smásöluverslunum. Hún sýnir að matarinnkaup landsmanna eru svipuð í ár og í fyrra. Meira er hins vegar keypt af raftækjum í ár en aukningin er 14%. Margrét segir aukna sölu raftækja ekki koma á óvart. Raftækjasala hafi verið mjög léleg frá hruni en hún sé nú að skila sér aftur.

Fataverslun hefur dregist saman frá því í fyrra um átta prósent. Margrét segir eina af ástæðunum þá að nokkuð sé um að fólk fari til útlanda til að versla sér föt. Hún segir verslun þó almennt betri en í fyrra.

„Ég held að þetta sé vísbending um það að við erum sem þjóð að rétta úr kútnum og það er að skila sér í jólaversluninni í ár," segir Margrét að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×