Innlent

Þakplötur fuku af Rauðagerði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgunarmenn festa þakplötur á Rauðagerði.
Björgunarmenn festa þakplötur á Rauðagerði. mynd/ óskar friðriksson
Þakplötur voru byrjaðar að losna af Rauðagerði við Boðaslóð í Vestmannaeyjum eftir hádegið í dag. Björgunarfélaginu í Vestmannaeyjum barst tilkynning um málið klukkan átján mínútur í tvö og fóru umsvifalaust á staðinn.

Óskar Friðriksson, fréttaritari Fréttablaðsins í Vestmannaeyjum, fékk þær upplýsingar að greiðlega hefði gengið að festa plöturnar aftur. Vindur á Stórhöfða hefur farið upp í allt að 28-30 metra á sekúndu af vestan og norð-norðvestan. Borist hafa að minnsta kosti fimm til sex útköll um að þakplötur væru farnar að losna og ljóst er að tjón er orðið nokkuð.

Þegar litið er á landið allt er ljóst að töluvert hefur verið um útköll björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar í dag. Sú veðurspá sem Veðurstofan spáði hefur gengið eftir þar sem veður hefur versnað til muna núna eftir hádegi. Auk Björgunarsveitarinnar í Vestmannaeyjum eru björgunarsveitir á Suðurlandi og á Reykjanesi núna að störfum við að aðstoða bíla sem lent hafa út af vegum vegna hálku og hvassviðris en einnig við að festa niður hluti sem hafa farið af stað vegna veðurs.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hvetur landsmenn til að leggja ekki í ferðalög meðan veðrið gengur yfir og fylgjast vel með veðurspá.

Á meðfylgjandi myndum má sjá björgunarsveitamenn að störfum við Rauðagerði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×