Innlent

Trúin tengir kynslóðir saman

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Trúin tengir kynslóðir sama, segir herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands.
Trúin tengir kynslóðir sama, segir herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands. Mynd/ Kirkjan.
Trúin tengir okkur saman, kynslóðirnar í þessu landi, sagði herra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, í sjónvarpspredikun sinni sem var sýnd í gær. Mikilvægt væri að hafa það í huga.

„Ef það er eitthvað sem tengir saman kynslóðirnar í þessu landi - annað en landið okkar, stórbrotin náttúra, mild og hörð í senn, og tungan, íslensk tunga - , þá er það trúin! Iðkun trúarinnar tengir kynslóðir þessa lands í þúsund ár, kynslóð eftir kynslóð: skírnin, signingin, Faðir vor. Allt hefur breyst, meir og minna allt, en ekki þetta. Hugleiddu það, íslenska þjóð, í umbrotum og uppgjöri sem ekki sér fyrir endann á, " sagði Karl. Hann sagði að þarna væri traustur, sterkur þráður sem tengdi okkur við fyrri tíðar kynslóðir. Ekki mætti hætta að iðka trúna.

Þá hvatti Karl til þess að trúin yrði ekki afskrifuð þó að ýmislegt varðandi hana væri óskiljanlegt manninum. „En hirðarnir og vitringarnir eiga það sameiginlegt að þeir kunnu að hrífast og undrast, og veita virðingu og lotning því sem æðra er mannlegum skilningi og rökum. Hugleiddu það, ef til vill er það einmitt slík virðing og lotning og undrun sem Guð er ekki síst að leita að," sagði Karl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×