Innlent

Gögnum stolið frá Fjölskylduhjálp Íslands á Suðurnesjum

„Það er ekki tölvan sem viljum fá til baka heldur aðeins gögnin sem eru í henni," segir Anna Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Fjölskylduhjálp Íslands á Suðurnesjum.

Það var ekki jólaleg sjón sem blasti við Önnu þegar hún kom í húsnæði Fjölskylduhjálparinnar í Gróinni 10C í morgun. Þar var búið að brjótast inn og róta í öllu.

„Það var farið upp á efri hæðina hér, sem er læst rými og þar var unnið skemmdarverk á hurð og eitthvað tekið. Við vorum með galla sem 66° norður gáfu okkur þarna uppi, og það hefur eitthvað af þeim verið teknir," segir hún.

En það er þó ekki það sem Fjölskylduhjálpin saknar mest. Því tölvu var stolið en í henni eru gögn um alla skjólstæðinga sem leita hjálpar til þeirra. „Okkur var gefin þessi tölva og í henni eru öll í gögn í sambandi við allar úthlutanir og kennitölur allra," segir hún og tekur fram að gögnin séu mjög persónuleg.

„Það er mjög alvarlegt mál. Það er búið að vera mikil neyð hérna á Suðurnesjum og hélt að einhver hefði farið hingað inn til að stela sér til matar," segir hún. „Mér finnst þetta hræðileg ljótt og dapurt en það er mikið af óreglufólki í þjóðfélaginu og fólk sem stundar svona iðju," segir hún en engir peningar voru í húsnæðinu í nótt.

Lögreglan rannsakaði vettvang í morgun og er málið í rannsókn. Þeir sem hafa einhverja vitneskju um innbrotið geta haft samband við Önnu í síma 897-8012 eða við lögregluna á Suðurnesjum í síma 420-1800.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×