Innlent

Handrukkunum fjölgað - dæmi um afklippta fingur og skotárás

Málum þar sem handrukkun er beitt hefur fjölgað síðustu misseri að mati lögreglu og meiri hörku er beitt en áður. Dæmi um það eru afklipptir fingur og skotárás.

Hæstiréttur þyngdi skömmu fyrir jól dóm yfir tveimur mönnum sem beittu hrottalegum aðferðum við handrukkun. Aðferðir mannanna vekja óhug. Þeir héldu fórnalambinu föngu í hálfan sólarhring. Á meðan beittu þeir hann grófu ofbeldi, hertu kaðal um háls hans, börðu hann með ryksuguröri og smituðu hann af lifrarbólgu C með sprautunál. Grófar aðferðir við handrukkun líkt og þessi eru ekkert eins dæmi en skemmst er að minnast skotárásar í Bryggjuhverfinu í síðasta mánuði.

Yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir sífellt algengara að handrukkunarmál rati inn á borð lögreglunnar.

„Annars vegar hefur þessum tilvikum fjölgað og hins vegar er fólk óhræddara við að kæra slík tilvik til lögreglu. Fólk hefur séð að lögreglan hefur er með mannskap og úrræði til að fást við svona mál og tekur þau föstum tökum," segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðið.

Friðrik Smári segir erfitt að henda reiður á hversu mörg mál komi upp á ári þar sem beitt er handrukkun þar sem þau eru ekki sérstaklega flokkuð sem slíkt heldur sé um að ræða fjárkúgun, hótanir og ofbeldi. Lögreglan meti það hins vegar sem svo að málunum hafi fjölgað síðustu misseri.

„Það hafa náttúrulega gengið dómar í svona málum og þar hefur komið fram að til dæmis frelsissvipting hefur verið tíðkuð og tilfelli þar sem að fingur hefur verið klipptur af einstaklingi,"

Þá segir Friðrik Smári grófari mál koma upp nú en áður.

„Það er meiri harka heldur en við höfum séð," segir Friðrik Smári að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×