Innlent

Margar götur illfærar

LVP skrifar
Íbúagötur eru margar illfærar í Reykjavík eftir óvenju harða tíð undanfarið. Nítján snjómoksturstæki hafa verið að störfum í dag en allt upp í hundrað og þrjátíu tonn af salti hefur farið á göturnar á einum degi sem er fjórfalt meira en venja er.

Borgarbúar hafa margir hverjir lent í vandræðum með að komast leiðar sinnar síðustu daga þar sem íbúagötur hafa sumar hverjar verið illfærar fólksbílum. Þorsteinn Birgisson, er yfirmaður þjónustumiðstöðvar gatna í borginni.

„Það er búið að vera óvenju hörð tíð í langan tíma. Þetta er uppsafnað. Það hefur verið á sumum stöðum verið allt upp í metershár snjór hérna vestur í bæ," segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir nítján snjóruðningstæki hafa verið notuð til að ryðja götur borgarinnar í dag. Stofnbrautir hafa verið í forgangi. „Tveir, þrír, fjórir síðustu vetur hafa verið mjög þægilegir. Við höfum ekki lent í þessu í mjög langan tíma. Til að skýra þetta út að í byrjun nóvember þá áttum við yfir 15 þúsund tonn af salti en það er búið núna. Það er geysilega mikið magn sem er búið á tiltölulega stuttum tíma," segir Þorsteinn.

Þorsteinn segir ekki óeðlilegt að notuð séu 30 til 40 tonn á sólarhring til að salta en nú gerist það að 130 tonn eru notuð á dag.

Vonast er til að búið verði að ryðja flestar íbúagötur í borginni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×