Innlent

Saltið að klárast í Reykjavík

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar
Einungis um nokkurra daga skammtur af salti er nú eftir í saltgeymslum Reykjavíkur eftir vetrarhörkur desembermánaðar. Samtals eru um sjö þúsund og fimmhundruð tonnum af salti stráð á götur borgarinnar á ári hverju.

Yfir þrjú þúsund og sjöhundruð tonn af salti voru til í lok sumars, en hratt hefur gengið á þessar birgðir í vetur, hraðar en undanfarin ár út af miklum vetrarhörkum. Þannig hafa aldrei verið jafn margir hvítir dagar í desember, samkvæmt Veðurstofu Íslands.

„Við höfum ekki lent í svona miklu í desember en janúar og febrúar er þetta algengt," segir Guðni Hannesson, yfirverkstjóri hjá Reykjavíkurborg.

Einungis um fimm til sex hundruð tonn af salti eru eftir í geymslunni sem er um helmingur af því sem gerist á venjulegu ári.

„það er nú margbreytilegt hvað við notum mikið af salti. Í svona snjókomu er það svona áttatíu tonn en annan dag jóla, fóru þrjú hundruð tonn. Þannig þetta er mjög breytilegt," útskýrir Guðni.

Það er því ljóst að ef tíðafarið breytist ekki mun ganga hratt á saltbirgðirnar en von er á nýjum birgðum í janúar svo Guðni hefur ekki áhyggjur af því að saltið klárist.

„Nei, við höfum aðgang að salti í Hafnarfirði, getum alltaf sótt ef okkur vantar, þannig það er engin hætta á saltskorti" segir Guðni að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×