Innlent

Byrjað að moka í hverfunum

Björgunarsveitir aðstoðuðu einstaklinga á leiðinni í vinnuna í morgun.
Björgunarsveitir aðstoðuðu einstaklinga á leiðinni í vinnuna í morgun. Mynd / María Worms
„Ég er að horfa hérna út um gluggann. Það er eiginlega ömurlegt að horfa á þetta," segir Þorsteinn Birgisson, yfirmaður þjónustumiðstöðvar Framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar. Um 50 gröfur og snjóruðningstæki eru að störfum víðsvegar um borgina vegna mikillar ofankomu. Snjórinn er um 40 sentímetra djúpur.

Þorsteinn segir að það sé búið að ryðja flestar stofnleiðir í borginni. Þá er einnig búið að ryðja að flestum leikskólum borgarinnar. Starfsmenn borgarinnar eru byrjaðir að ryðja götur í öllum hverfum borgarinnar að sögn Þorsteins, sem treystir sér ekki til þess að fullyrða hvenær verkinu verður lokið, þá ekki síst vegna þess að það snjóar enn af krafti.

Hann segir starfsmenn borgarinnar reyna eins og þeir geta að ryðja borgina og á sem skemmstum tíma. Þorsteinn stefnir að því að birta upplýsingar á vef Reykjavíkurborgar fyrir hádegi, svo stendur til að uppfæra þær upplýsingar reglulega í dag.

Spurður hvort færðin hafi komið borgarstarfsmönnum í opna skjöldu, svarar Þorsteinn því til að svo hafi ekki verið. Borgin samdi við þrjú fyrirtæki um snjómokstur auk þess sem borgarstarfsmenn ryðja sjálfir. Því ætti verkefnið ekki að vera borginni ofviða, þó það gæti sóst hægt miðað við veðrið, eins og það er núna.

Þorsteinn biður fólk líka um að sýna þolinmæði. Hann segist þegar hafa fengið nokkra pósta frá bálreiðum einstaklingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×