Innlent

Borgin leitar að pólskumælandi ráðgjafa

Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að ráðinn verði pólskumælandi ráðgjafi innflytjenda í fullt starf.

Í tilkynningu frá borginni kemur fram að ráðgjafinn muni heyra undir mannréttindaskrifstofu en verður staðsettur á þjónustuskrifstofu Reykjavíkurborgar á Höfðatorgi. Samhliða þessu mun Reykjavíkurborg stofna nýtt símanúmer þar sem veittar verða upplýsingar um þjónustu Reykjavíkurborgar á pólsku. Ráðið verður í stöðuna til reynslu í eitt ár.

Reykjavíkurborg rekur nú þegar vefsíður þar sem veittar eru allar grunnupplýsingar um þjónustu borgarinnar á pólsku og ensku og fréttaþjónustu á sömu tungumálum. Nýja ráðgjafastaðan mun renna enn styrkari stoðum undir þjónustu við pólska innflytjendur í Reykjavík en pólverjar eru fjölmennastir innflytjenda í Reykjavík og telja um 3.300 manns eða um 30% af innflytjendasamfélaginu í Reykjavík.

Nánari upplýsingar um stöðuna er að finna á vef Reykjavíkurborgar, www.reykjavik.is undir hnappnum Störf í boði.

Slóðin á pólska vefsvæðið er www.reykjavik.is/polski.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×