Innlent

Þór Saari: Náðum ekki samkomulagi um stefnumál

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. Hann lítur svo á að óformlegum viðræðum við forystumenn ríkisstjórnarinnar sé nú lokið.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar. Hann lítur svo á að óformlegum viðræðum við forystumenn ríkisstjórnarinnar sé nú lokið.
„Þetta voru bara fyrst og fremst óformlegar viðræður fremur en samningaviðræður," segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar um viðræður sem þingmenn flokksins áttu við forystumenn í ríkisstjórninni um samstarf við stjórnina.

Upplifir þú að ríkisstjórnin glími við vanda? „Það er greinilegt að þau búast við einhverri óvissu vegna fyrirhugaðra breytinga á ríkisstjórninni. Það getur varla verið neitt annað," segir Þór.

Hversu langt náðu þessar viðræður? „Þær fóru í að ræða tillögur fram og til baka og reyna að komast að samkomulagi um grundvöll til að starfa saman á, en hann náðist ekki."

Forystumenn í ríkisstjórninni tóku þátt í viðræðunum, en rætt var um að Hreyfingin myndi verja ríkisstjórnina vantrausti og styðja hana í ákveðnum málum, samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar.

Komst þetta á það stig að rætt væri um ráðherrastóla? „Nei, við fórum aldrei í þetta með það í huga. Við erum bara þrjú og getum ekki misst þingmenn í embætti. Það var alveg skýrt hjá okkur að við værum ekki að sækjast eftir ráðherrastólum eða embættum eins og formennsku í nefndum eða forsæti þingsins. Við vildum bara koma ákveðnum málum í gegn, en þar má nefna róttækar lýðræðisumbætur, persónukjör, nýja stjórnarskrá. Og skuldavanda heimilanna, en það var kannski helst það sem þetta strandaði á," segir Þór sem lítur nú svo á að þessum viðræðum sé lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×