Innlent

Ráðherrabreytingar í bígerð

Tillaga um breytingar á ráðherraliði ríkisstjórnarinnar verður lögð fram á þingflokksfundum stjórnarflokkanna á morgun. Helst er rætt um Árna Pál Árnason og Jón Bjarnason en bæði þingflokkar og stjórnir flokkanna þurfa að samþykkja breytingarnar.

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa rætt um það undanfarna daga hvort gera eigi breytingar á ráðherraskipan. Á gamlársdag verður haldinn ríkisráðsfundur, samkvæmt venju, en ráðherraskipti eru jafnan ákveðin formlega á slíkum fundum. Samkvæmt heimildum fréttastofu hyggjast því forystumenn stjórnarflokkana ráðast í breytingarnar á gamlársdag ef af þeim verður. Slíkar breytingar eru þó háðar samþykki þingflokka og flokksstjórna.

Samfylkingin hefur því boðað þingflokksfund seinni partinn á morgun sem og flokksstjórnarfund á Hótel Nordica klukkan 18:30 en ,,áform um breytingar á ríkisstjórninni" eru á dagskrá beggja funda. Sömuleiðis hafa vinstri grænir boðað þingflokksfund á morgun klukkan korter í sex.

Ekki hafa fengist nákvæmar upplýsingar um hvaða breytingar verði gerðar á ríkisstjórninni, en heimildir fréttastofu herma að rætt hafi verið um stöðu Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra og Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þá hafi jafnframt hugmyndir um frekari hrókeringar innan ríkisstjórnarinnar verið ræddar, en ekkert hefur fengist staðfest. Almennt eru þó allar slíkar ákvarðanir háðar samþykki þingflokka og flokksstjórna en greidd verða atkvæði um tillögu forystumanna ríkisstjórnarinnar á fundum þeirra á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×