Innlent

Gengur ekki lengur að nota hrunið sem afsökun

Gunnar segir að treysti meirihlutinn sér ekki til þess að reka samfélagið ætti hann að fara frá völdum.
Gunnar segir að treysti meirihlutinn sér ekki til þess að reka samfélagið ætti hann að fara frá völdum. Mynd/Vilhelm
Landsbyggðarþingmönnum var heitt í hamsi í atkvæðagreiðslu um niðurskurð heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni síðdegis í gær og sagði þingflokksformaður framsóknarmanna, Gunnar Bragi Sveinsson, að það þýddi ekki lengur fyrir ríkisstjórnina að nota hrunið sem afsökun.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kom upp í ræðustól til að gagnrýna breytingartillögur sem stjórnarandstöðuþingmenn gerðu við fjárlögin þess efnis að framlög yrðu hækkuð til sjúkrastofnana á landsbyggðinni og þannig dregið yrði úr niðurskurðinum ,,..þar sem ótal tillögur eru fluttar um aukningar alveg úr takti við þann veruleika sem við búum við vegna tekjuskerðingar," sagði Guðbjartur.

,,Heilbrigðismálin sem betur fer halda sínum hlut af tekjum, halda sínum hlut af landsframleiðslu. Þetta er ekki auðvelt en það er ómaklegt að segja að þetta sé tilviljunarkennt og það er ómaklegt að segja að að það sé verið að tala um einhvern hrylling," sagði ráðherrann.

Framsóknarmaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson svaraði Guðbjarti:

,,Það gengur ekkert að koma hér í hvert einasta skipti sem ríkisstjórnin og ráðherra þurfa færa rök fyrir sínu máli og segja að hér hafi orðið hrun. Þetta er bara ekkert marktækt lengur," sagði Gunnar Bragi og bætti við:

,,Það er verið að vega að grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu hringinn í kringum landið og á því ber þessi stjórnarmeirihluti ábyrgð. Hann ber ábyrgð. Og ef hann treystir sér ekki til þess að reka þetta samfélag á þeim nótum, - vitandi það jú að hér varð hrun, - ef hann treystir sér ekki til að bregðast við því, - þá á hann að fara frá völdum nú þegar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×