Innlent

Vilja að Strætó gangi fram yfir miðnætti alla daga

Síðastliðinn mánuð voru settar inn rúmlega 300 hugmyndir á samráðsvettvanginn Betri Reykjavík. Hugmyndirnar miða að því að bæta þjónustu við borgarbúa og á meðal þeirra tillagna sem fengu mestan stuðning síðastliðinn mánuð var sú að Strætó verði látinn ganga fram yfir miðnætti alla daga. Sú hugmynd hefur nú verið send til umhverfis- og samgönguráðs til umfjöllunar.

Hugmynd um að endurvekja skólagarðana með þeim rökum að nýta megi uppskeru þeirra í skólamötuneytum borgarinnar, hefur jafnframt verið send til umhverfis- og samgönguráðs. „Önnur skyld hugmynd, að gera áætlun um að bæta næringu nemenda skólanna, hefur verið send skóla- og frístundaráði. Þær hugmyndir sem mest vægi fá á Betri Reykjavík eru mánaðarlega teknar til umfjöllunar í fagráðum borgarinnar. Að þessu sinni voru þær 14 alls,“ segir á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Á heimasíðunni segir að um 25.000 manns hafi heimsótt vefinn og eru skráðir notendur nú yfir 2.600. „Einungis skráðir notendur geta unnið á vefnum, sett inn hugmyndir, stutt hugmyndir eða hafnað þeim og skrifað rök með eða á móti hugmyndum.“

„Reykjavíkurborg hvetur alla Reykvíkinga til að kynna sér Betri Reykjavík og taka þátt á vefnum enda er þar kominn vettvangur fyrir borgarana til að kynna sér málefni borgarinnar og hafa áhrif á þau,“ segir einnig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.