Innlent

Stórtjón í eldsvoða í Vestmannaeyjum í nótt

Frá vettvangi í morgun. Mynd: Gísli.
Frá vettvangi í morgun. Mynd: Gísli.
Stórtjón varð þegar stórhýsið Drífandi í Vestmannaeyjum, sem meðal annars hýsir Hótel Eyjar, stór skemmdist í eldsvoða í nótt, en engan sakaði.

Eldsins varð vart upp úr klukkan þrjú og logaði eldur glatt í húsinu og það var orðið fullt af reyk, þegar slökkviliðið kom á vettvang. Eldtungur stóðu þá uppúr stórri glerstofu uppi á húsinu.

Reykkafarar voru sendir inn og lögðu sig í hættu við að kanna hvort einhverjir gestir væru í húsinu, þar sem nokkur herbergi voru bókuð, en þeir voru í vaktavinnu úti í bæ.

Eldurinn var magnaðastur í þvottahúsi á annarri hæð og er talið að hann hafi kviknað þar, en húsið, sem er steinhús, er byggt í tveimur áföngum upp á þrjár til fjórar hæðir. Það er með timburloftum í eldri hlutanum.

Slökkvistarf gekk vel en ljóst er að skemmdir urðu um allt hús, og meðal annars í stórri verslun Eymundssonar á neðstu hæð, þar sem allt fylltist af reyk og vatn barst þangað inn. Slökkviliðsmenn voru fram á morgun að rífa milliveggi og slökkva í glæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×