Innlent

Varaborgarfulltrúi VG spáir úrsögnum úr flokknum fari Jón

Fjöldi Vinstri grænna, sem lýsir stuðningi við Jón Bjarnason landbúnaðar-og sjávarútvegsráðherra í heilsíðuauglýsingum í dagblöðunum í dag, fullyrðir að Jóhanna Sigurðardóttir krefjist þess að Jón víki úr ríkisstjórninni. Varaborgarfulltrúi flokksins spáir úrsögnum úr flokknum ef það verður niðurstaðan.

Vel á annað hundruð Vinstri grænir skrá nöfn sín undir stuðningsyfirlýsinguna í blöðunum í dag, sem er einskonar áskorun til þingflokksins. Þar segir einnig í yfirskrift að Jón hafi ekkert aðhafst sem réttlæti brottvikningu hans úr starfi, og að hann hafi staðið manna traustastan vörð um stefnu Vinstri grænna, þar á meðal gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Þar sem Jóni er þar með lýst traustari en örðum, var Þorleifur Gunnlaugsson varaborgarfulltrúi VG spurður í Bítinu á Bylgjunni í morgun hvort menn væru þá óánægðir með með stefnufestu formannsins, Steingríms J. Sigfússonar. „Ég er óánægður með þá samráðherra Jóns sem ekki geta lýst yfir stuðningi við hann,“ sagði Þorleifur og undanskilur ekki Steingrím J. í þeim efnum.

„Ég er oft búinn að sjá þetta sem mér finnst hafa jaðrað við einelti gegn Jóni Bjarnasyni,“ segir Þorleifur og að hans mati telja Evrópusambandssinnar í ríkisstjórninni nú nauðsynlegt að Jón hverfi á braut.

Það sem ég held að gerist í mínum flokki er mikil óánægja segir Þorleifur og segist búast við uppsögnum í flokknum fari það svo að Jóni verði skipt út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×