Innlent

Engin sátt um nýja kvótafrumvarpið

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Ólína átelur vinnubrögð við undirbúning frumvarpsins.
Ólína átelur vinnubrögð við undirbúning frumvarpsins. mynd/ anton brink.
Þingmaður Samfylkingarinnar segir enga sátt fólgna í drögum að nýju kvótafrumvarp sjávarútvegsráðherra og getur ekki ímyndað sér að það gæti komist óbreytt í  gegnum þingið.

Síðasta vor lagði sjávarútvegsráðherra fram frumvarp til nýrra heildarlaga um stjórn fiskveiða, sem kallað var stóra kvótafrumvarpið, en vegna mikils ágreinings um frumvarpið hlaut það ekki afgreiðslu. Starfshópur sjávarútvegsráðuneytisins hefur nú skilað drögum að nýju frumvarpi, en þar er ekki um að ræða ný heildarlög, heldur breytingar á gildandi lögum, þar sem starfshópurinn telur að breytingarnar rúmist innan þeirra.

Ólína Þorvarðardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í atvinnuveganefnd þingsins, átelur vinnubrögð við undirbúning frumvarpsins. Hún segir hvergi hafa verið tekið tillit til athugasemda stjórnarþingmanna við fyrra frumvarpið, og það hafi einkum verið unnið í samráði við tiltekinn hóp einstaklinga úr stjórnarandstöðuflokkunum, án þess að stjórnarþingmenn hafi komið að því.

Hún segir einkennilegt af Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegsráðherra, að birta þau á heimasíðu ráðuneytisins líkt og um stjórnarfrumvarp sé að ræða. Ráðherranefnd um sjávarútvegsmálin var skipuð í gær og þeim Guðbjarti Hannessyni og Katrínu Jakobsdóttur falið að taka málið í sínar hendur, en af því megi ráða að málið sé ekki útkljáð í ríkisstjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×