Innlent

Katrín afar bjartsýn á olíuleitina

Kristján Már Unnarsson skrifar
Iðnaðarráðherra segir að þung áhersla verði lögð á að þjónustumiðstöð vegna olíuleitar á Drekasvæði verði á Íslandi fremur en Jan Mayen og lýsir mikilli bjartsýni um yfirstandandi útboð.

Olíustofnun Noregs skýrði í síðustu viku frá afar jákvæðum niðurstöðum úr rannsóknum á Jan Mayen hryggnum í sumar sem gefi góðar vonir um olíu. Norðmenn undirbúa sjálfir olíuleit á svæðinu og hafa opnað á þann möguleika að þjónustumiðstöð fyrir olíuleitina verði á Jan Mayen.

Í svari við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar á Alþingi í dag benti Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra á að þjónustumiðstöð hefði verið undirbúin á Norðausturlandi sem og lóðir undir vinnslustöðvar olíu og gass í Gunnólfsvík. Hún sagði að mikil áhersla væri lögð á að þjónustumiðstöðin yrði á Norðausturlandi. Það væri mun betri kostur en Jan Mayen því horfa yrði til þess hversu mikið ósnortið land þar væri auk þess sem hún teldi að allar aðstæður væru betri á Íslandi.

,,Mælingarnar í sumar segja mér að ég ætla leyfa mér að verða bjartsýn á að það verði mjög jákvæðar niðurstöður úr þessu útboði sem nú stendur yfir af okkar hálfu og niðurstaðan verður í apríl," sagði Katrín.

,,Auðvitað er aldrei hægt að lofa neinu en ég ætla að leyfa mér allavegana að segja að þetta gefi því ansi sterkan byr í seglin, þessar niðurstöður sumarsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×