Innlent

Tunglmyrkvi á Íslandi 10. desember

Tunglmyrkvi í Reykjavík sem sást í mars árið 2007.
Tunglmyrkvi í Reykjavík sem sást í mars árið 2007. Egill Aðalsteinsson/Stöð 2
Tunglmyrkvi verður á Íslandi þann 10. desember næstkomandi. Hann mun sjást sem almyrkvi á austanverðu landinu en sem deildarmyrkvi vestanlands, svo fremi að ekki verði skýjað.

Samkvæmt upplýsingum á vef Almanaks Háskóla Íslands hefst almyrkvinn þegar enn er dagsbirta á Íslandi og því sést ekki almyrkvað tungl frá Reykjavík en deildarmyrkvi verður sýnilegur þaðan þegar dimmir. Austast á landinu sést tunglið almyrkvað þegar það kemur upp fyrir sjóndeildarhringinn undir lok almyrkvans.

Almyrkvar á tungli sjást að meðaltali á tveggja til þriggja ára fresti frá hverjum stað á jörðinni. Stutt er þó frá síðasta tunglmyrkva á Íslandi en hann var þann 21. desember í fyrra og sást í 74 mínútur.

Á Stjörnufræðivefnum segir að tunglmyrkvar séu með fallegustu stjarnfræðilegu sjónarspilum sem sjá megi með berum augum. Næst sést almyrkvi á tungli frá öllu Íslandi þann 28. september árið 2015.

Tunglmyrkvar sjást frá hálfri jörðinni í senn, það er að segja þeim helmingi jarðar sem snýr að tungli þegar myrkvinn verður. Það heitir almyrkvi á tungli ef tunglið gengur allt inn í skugga jarðar frá sólinni. Tunglmyrkvar geta aðeins orðið þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×