Innlent

Hrottalegur handrukkari í Outlaws úrskurðaður í gæsluvarðhald

Maðurinn sem var handtekinn í skotárásarmálinu, og hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald, hefur margsinnis komist í kast við lögin vegna hrottalegra handrukkana.

Meðal annars var hann í slagtogi við mann sem klippti fingur af öðrum manni árið 2007. Sjálfur var hann dæmdur fyrir að lemja manninn með hafnaboltakylfu í sömu árás. Maðurinn er meðlimur í vélhjólagenginu Outlaws, sem áður kallaðist Black Pistons, að sögn lögreglunnar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær þrjá einstaklinga í tengslum við rannsókn á skotárás í Bryggjuhverfinu fyrr í mánuðinum og lögðu hald á stærsta vopnasafn sem lögreglan hefur lagt hald á. Meðal annars fann lögreglan í fyrsta skiptið skothelt vesti í fórum meintra glæpamanna.

Tveimur hefur nú verið sleppt en karlmaður, fæddur árið 1980, og er meðlimur í Outlaws, var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna skotárásarinnar í dag.

Nú hafa tveir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins og annar maður hafið afplánun á öðrum dómi.

Vélhjólamaðurinn var dæmdur á síðasta ári fyrir að svipta mann frelsinu og fara með hann upp í Heiðmörk ásamt þremur öðrum mönnum. Þar var fórnarlambinu misþyrmt hrottalega, meðal annars með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði. Svo var hann skilinn eftir í blóði sínu. Ástæðan var fíkniefnaskuld.

Samkvæmt heimildum Vísis hugðust mennirnir einnig handrukka fórnarlambið vegna fíkniefnaskuldar í þetta skiptið. Skotárásin er rannsökuð sem morðtilraun samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×