Fótbolti

Rekdal drullar yfir norska landsliðið: Hefðum tapað 10-0 á móti Hollandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Wales fagna einu marka sinna í gær.
Leikmenn Wales fagna einu marka sinna í gær. Mynd/AP
Kjetil Rekdal, þjálfari bikarmeistara Aalesund, var allt annað en ánægður með frammistöðu norska landsliðsins sem tapaði 4-1 á móti Wales í vináttulandsleik á Þúsaldarleikvanginum í Cardiff í gær.

Þetta var í fyrsta sinn sem norska landsliðið fær á sig fjögur mörk í leik undir stjórn hins varnarsinnaða þjálfara Egil Drillo Olsen sem tefldi fram tveimur framherjum í þessum leik með svona slæmum árangri.

Egil Drillo Olsen hélt því fram eftir leikinn að úrslitin hafi ekki gefið rétta mynd af leiknum og frammistaðan hafi ekki verið svona slæm. Kjetil Rekdal er ekki sammála því.

„Þetta var fáránlegt svar hjá honum. Við erum að mæta Wales og það er langt frá því að vera ein besta knattspyrnuþjóð heims. Ef að við hefðum mætt Hollandi og spilað svona þá hefðum við tapað þessum leik 10-0," sagði Kjetil Rekdal.

„Ef metnaðurinn er ekki meira en þetta þá getum við alveg eins gleymt því að ætla að komast inn á stórmót," sagði Rekdal en norska landsliðið er einmitt í riðli með Íslandi í undankeppni HM 2014.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×