Enski boltinn

Sonur Sir Alex: Að vera 25 ár með Man. United er stærsta afrek pabba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. Mynd/Nordic Photos/Getty
Darren Ferguson, sonur Sir Alex Ferguson, segir ákveðni pabba síns og góð eiginkona vera lykilatriðin á bak við það að faðir sinn sé búinn að sitja í stjórastólnum á Old Trafford í aldarfjórðung. Ferguson fagnar 25 ára starfsafmæli um helgina.

„Það er frábært afrek að endast 25 ár í sama starfi hvað þá sem stjóri Manchester United," sagði Darren Ferguson, 39 ára sonur Sir Alex Ferguson og bætti við:

„Sú staðreynd að hann er búinn að vera 25 ár með Manchester United er hans stærsta afrek að mínu mati. Hann er búinn að vinna alla þessa titla en hans stærsta afrek er að ná að byggja upp öll þessi meistaralið hjá félaginu," sagði Darren.

„Það er pottþétt að hann hefði ekki náð þessum árangri án móður minnar" sagði Darren en viðurkennir jafnframt að Sir Alex hafi ekki haft mikinn tíma til að taka þátt í uppeldi barnanna.

„Ákveðni hans og þrá í að búa til ný lið gerir hann öðruvísi en alla aðra stjóra. Hann fer ennþá eldsnemma í vinnuna og mættur á undan flestum. Ég held að hann verði í það minnsta þrjú ár til viðbótar í starfinu enda á þetta lið sem hann er að búa til núna, þrjú frábær ár framundan," sagði Darren Ferguson.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×