Enski boltinn

Taarabt vill fara frá QPR í janúar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Adel Taarabt, leikmaður nýliða QPR í ensku úrvalsdeildinni, hefur gefið það út að hann vilji fara frá félaginu í janúar næstkomandi.

Taarabt var sterklega orðaður við PSG í Frakklandi en Neil Warnock, stjóri QPR, sannfærði kappann um að vera áfram í herbúðum liðsins og spila með því í ensku úrvalsdeildinni.

Um helgina tapaði QPR fyrir Fulham, 6-0, og var Taarabt skipt af velli í hálfleik. Kappinn var óánægður með það og yfirgaf leikvanginn áður en leiknum lauk.

„Ég vil fara frá QPR þegar að félagskiptaglugginn opnar í janúar,“ sagði Taarabt við enska fjölmiðla í morgun. „Ástæðurnar eru fjárhagslegar.“

Taarabt var frábær í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð en hefur átt erfitt uppdráttar í haust. Engu að síður vill hann komast annað til að fá betur borgað en PSG er nú í eigu mjög fjársterkra aðila sem geta boðið honum gull og græna skóga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×