Enski boltinn

Eriksen hafnaði Manchester City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Christian Eriksen fagnar marki í leik með Ajax á síðustu leiktíð.
Christian Eriksen fagnar marki í leik með Ajax á síðustu leiktíð. Nordic Photos / AFP
Umboðsmaður hins danska Christian Eriksen segir að leikmaðurinn hafi hafnað tækifæri til að ganga til liðs við Manchester City og þéna þær háar upphæðir.

„Christian finnst mikið til þess koma að eitt stærsta félag heims hafi sýnt honum svo mikinn áhuga,“ sagði umboðsmaðurinn Martin Schoots við hollenska fjölmiðla.

Eriksen er nítján ára gamall en er engu að síður orðinn fastamaður í danska landsliðinu. Hann hefur átt góðu gengi að fagna með Ajax í Hollandi þar sem hann er nú samherji Kolbeins Sigþórssonar.

Áður en hann fór til Ajax hafnaði hann einnig öðrum stórliðum á borð við Barcelona og Chelsea þar sem að hann taldi að honum yrði betur borgið hjá liði eins og Ajax.

„Honum finnst það ekki tímabært að fara til Manchester nú. Það skiptir meira máli en peningarnir. Það segir sitt um hvernig Christian vill byggja upp sinn feril.“

City hefur neitað þessum fregnum og segir það ekki rétt að félagið hafi lagt fram tilboð í Eriksen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×