Innlent

Nú þarf að leggja pinnið á minnið

Á næstu mánuðum verður æ meira áríðandi að fólk muni pin-númer debet- og kreditkorta sinna. Verslanir og fyrirtæki eru byrjuð að setja upp posa þar sem viðskiptavinir staðfesta greiðslu með því að slá inn pin-númer í stað undirskriftar.

Sigurður Hjalti Kristjánsson verkefnisstjóri hjá Capacent var fyrstur til að staðfesta slíka færslu á posa í Vínbúðinni Heiðrúnu í morgun. Þar var ýtt úr vör átakinu Pinnið á minnið - til að minna fólk á að innan tíðar komist menn ekki hjá því að muna pin-númerin til að kaupa vörur og borga fyrir þjónustu.

Þetta fyrirkomulag, að staðfesta kortagreiðslur í verslunum með pin-númeri í stað þess að skrifa undir miða, tíðkast víða erlendis - enda talið öruggara fyrirkomulag. Erfitt getur reynst fyrir þjófa að nota stolið kort í verslun þar sem þarf að staðfesta kaup með pin-númeri.

Hátt í fimmtán þúsund posar verða settir upp í verslunum og fyrirtækjum á næstunni. Vínbúðin er fyrsta stóra fyrirtækið sem býður upp á þessa tegund posa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×