Innlent

Skylda að skila öllu klinkinu

Samkvæmt reglum um gjaldeyrismál ber okkur skylda til að skila öllum ferðagjaldeyri innan tveggja vikna, þar með talið erlendri smámynt. Vandamálið er hins vegar að íslensk fjármálafyrirtæki taka ekki við erlendu klinki.

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir gjaldeyrishöftin nú þegar farin að hafa mjög neikvæð áhrif á uppbyggingu atvinnulífs í landinu. „Þetta er eitthvað sem að kannski fer ekki nægilega hátt eða gerist í raun og veru hljóðlega."

„Í því felst verulegur skaði fyrir alla sem hér búa, sem dæmi má nefna það að undanþáguákvæði haftanna þau fela í sér beina hvata fyrir íslensk fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi að hliðra ákveðnum stórum hluta starfsemi sinnar utan landsteinanna sem er þveröfugt við það sem við viljum," segir Finnur Oddsson, framkvæmdastóri Viðskiptaráðs.

Hann segir önnur atriði gjaldeyrishaftanna hins vegar vera háværari í umræðunni. Til dæmis reglur um ferðamannagjaldeyri. Heimilt er að taka út allt að 350 þúsund krónur í ferðagjaldeyri á mánuði, gegn framvísun flugmiða. Í reglunum kveður einnig á um skilaskyldu gjaldeyris, það er að öllum erlendum gjaldeyri skal skilað til fjármálafyrirtækis innan tveggja vikna frá því hann komst eða gat komist í umráð eiganda.

Þannig að þegar við komum frá útlöndum með nokkrar evrur eða dollara í vasanum bera okkur að skila þeim gjaldeyri aftur til bankans. Þetta gildir líka um klinkið sem við komum með heim, vandamálið er hins vegar að bankar taka ekki við klinkinu.

„Þú þarft með einhverjum hætti að koma þeim frá þér til að brjóta ekki lögin þú þarft þá að gefa einhverjum þau annað hvort fjármálastofnuninni eða kannski betra að gefa þetta í Vildarbörn sem gætu örugglega notað eitthvað af þessu," segir Finnur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.