Innlent

Vilja gefa út gæludýravegabréf í staðinn fyrir sóttkví

Helgi Hjörvar ásamt blindrahundinum Herra X .
Helgi Hjörvar ásamt blindrahundinum Herra X .
Þrír þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að reglum um innflutning gæsludýra verði rýmkaðar, meðal annars með útgáfu sérstakra gæludýravegabréfa.

Það eru þingmennirnir Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir og Magnús Orri Schram, sem eru flutningsmenn frumvarpsins sem miðar meðal annars að því að leitar- og blindrahundar þurfi ekki að fara í fjögurra vikna sóttkví þegar þeir koma til landsins, sérstaklega í ljósi þess að slík vistun getur raskað verulega þjálfun hundanna.

Í greinagerðinni segir kemur fram að í frumvarpinu sé lagt til að ekki þurfi að einangra gæludýr sem flutt eru inn til landsins, svo framarlega sem með þeim fylgi nauðsynleg heilbrigðis- og upprunavottorð sem staðfesta nauðsynlega bólusetningu og að blóðsýnataka hafi leitt í ljóst að dýrið hafi myndað mótefni gegn sjúkdómnum sem bólusett var gegn.

Með frumvarpinu er einstaklingum því gert kleift að ferðast með dýr sín til útlanda og aftur heim án þess að nauðsynlegt sé að þau séu einangruð í sóttvarnastöð við heimkomu.

Verði frumvarpið samþykkt verður það Matvælastofnun sem gefur út gæludýravegabréf fyrir þau gæludýr sem uppfylla skilyrði laganna.

Þess má einnig geta að Ísland er eitt af tíu löndum veraldar sem er algjörlega laust við hundaæði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×