Íslenski boltinn

Meiðslalistinn lengist hjá KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Skúli Jón og Bjarni Guðjónsson glíma báðir við meiðsli.
Skúli Jón og Bjarni Guðjónsson glíma báðir við meiðsli. Fréttablaðið/Stefán
Þónokkuð er um meiðsli í herbúðum KR en í fyrrakvöld urðu þrír leikmenn að fara meiddir af velli þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Stjörnuna.

Skúli Jón Friðgeirsson varnarmaður tognaði aftan í læri og verður frá næstu 2-3 vikurnar hið minnsta. „Það getur verið að ég verði orðinn góður eftir landsleikjafríið en það getur líka vel verið að ég verði lengur frá. Ég vona auðvitað að ég þurfi ekki nema 2-3 vikur til að jafna mig því það væri skelfilegt að missa af restinni af tímabilinu,“ sagði Skúli Jón í gær. Það er ljóst að hann missir af toppleik KR og ÍBV á morgun.

Óskar Örn Hauksson spilar ekki meira á tímabilinu vegna meiðsla og þá voru þeir Gunnar Örn Jónsson og Magnús Már Lúðvíksson ekki á skýrslu gegn Stjörnunni vegna meiðsla. Bjarni Guðjónsson spilaði þó allan leikinn þrátt fyrir að vera ekki 100 prósent heill heilsu.

Þeir Viktor Bjarki Arnarsson og Björn Jónsson létu báðir skipta sér út af velli vegna meiðsla í fyrrakvöld en Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var vongóður um að þeir myndu spila gegn ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×