Innlent

Oddviti L-listans: Bíðum róleg

„Auðvitað spilar inn í þetta óánægja með fjórflokkinn á landsvísu,“ segir Geir.
„Auðvitað spilar inn í þetta óánægja með fjórflokkinn á landsvísu,“ segir Geir.

„Við erum róleg og vitum að að leikurinn er ekki búinn fyrr en dómarinn flautar. Við bíðum því róleg eftir því hvað kemur upp úr kjörkössunum," segir Geir Kristinn Aðalsteinsson sem skipar fyrsta sæti á framboðslista L-listans, lista fólksins, á Akureyri.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir fréttamiðilinn Vikudag mælist L-listinn með 39,3% fylgi og fengi fimm bæjarfulltrúa af ellefu. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 14,2% fylgi og tvo bæjarfulltrúa en önnur framboð fá einn bæjarfulltrúa hvert. Framsóknarflokkurinn fær 13% fylgi, Vinstri grænir 12,6%, Samfylkingin 11,2% og Bæjarlistinn 9,7%.

Í kosningunum fyrir fjórum árum fékk Sjálfstæðisflokkurinn fjóra bæjarfulltrúa, Samfylkingin þrjá, VG tvo, Framsókn einn og L-listinn einn. Í kjölfarið mynduðu Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin meirihluta.

Fólk óánægt með fjórflokkinn

Geir segir frambjóðendur L-listans finna fyrir gríðarlega miklum meðbyr í bæjarfélaginu. „Auðvitað spilar inn í þetta óánægja með fjórflokkinn á landsvísu. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir því en við höfum unnið okkar heimavinnu mjög vel og höfum lagt fram raunhæfa og ábyrga stefnuskrá sem er að hitta í mark hjá fólki," segir Geir bætir við að L-listinn bjóði nú fram í fjórða sinn á Akureyri. Framboðið sé því fyrir margt löngu orðið rótgróið afl í bænum.

Vilja faglega ráðinn bæjarstjóra



Capacent Gallup spurði Akureyringa einnig hvort að ráða eigi pólitískan eða ópólitískan bæjarstjóra á næsta kjörtímabili. Af þeim sem tóku afstöðu vildu 82,6% að ráðinn yrði ópólitískur bæjarstjóri en 17,4% vildu ráða pólitískan bæjarstjóra.

Þrír bæjarstjórar hafa setið á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka.

Geir bendir á það hafi lengi verið eitt af stefnumálum L-listans að bæjarstjórinn verði ráðinn faglega. „Við teljum mikilvægt að stíga þetta skref þannig að bæjarstjórinn verði sameiningartákn bæjarbúa og fyrirtækjanna í bænum og efli í rauninni bæjarstjórnina í heild sinni."


Tengdar fréttir

Stefnir í stórsigur L-listans á Akureyri

L-listinn, listi fólksins, vinnur stórsigur í bæjarstjórnarkosningunum á Akureyri á laugardag og fær fimm bæjarfulltrúa af ellefu, samkvæmt könnun Capacent Gallup fyrir fréttamiðilinn Vikudag. Núverandi meirihlutaflokkar mælast með þrjá bæjarfulltrúa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×