Innlent

Mótmæltu ákærum nímenninganna í Barcelona

Frá mótmælunum í Barcelona
Frá mótmælunum í Barcelona
Á hádegi í gær hittust um tuttugu manns við íslensku ræðismannaskrifstofuna í Barcelona til að sýna reiði sína í garð íslenska ríkisins vegna réttarhaldanna sem fara fram yfir nímenningunum svokölluðu. Þeir eru ákærðir fyrir árás á Alþingi í desember 2008.

Í yfirlýsingu frá stuðningssíðu nímenninganna segir: „Kúgunaraðferðir íslenska ríkisins teygja sig meira að segja til ræðismannaskrifstofunnar, sem kallaði á aðstoð ofbeldisfyllstu lögregludeildar Barcelona - „Mossos" eins og hún er kölluð. Fjöldi „Mossos" lögreglumanna voru í inngangi byggingarinnar auk þess sem nokkrir óeirðarbílar biðu í nálægri götu. Í byggingunni sem hýsir íslensku ræðismannaskrifstofuna er fjöldi annarra skrifstofa og venjulega er þar aðeins einn vörður."

Þar segir að þeir sem stóðu fyrir mótmælunum hafi tekið sér stöðu á götunni og mótmælt í meira en klukkustund. Þar voru þau með spjöld og borða sem stóð á „Stöðvið kúgunina á íslenskum aktívistum!" og „Ef nímenningarnir verða felldir, fellur íslenska ríkið líka!".

Þeim var ekki hleypt inn í bygginguna að þeirra sögn.

„Við dreifðum dreifimiðum um kúgunina og um ástandið á Íslandi veturinn 2008-2009, bjuggum til hávaða og kölluðum slagorð til stuðnings nímenningunum - og auðvitað gegn hinu kapítalíska kerfi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×