Innlent

Sakar þingmann um pólitískar ofsóknir

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Jóhannes Jónsson kaupmaður í Bónus sendi viðskiptanefnd Alþingis bréf í vikunni þar sem hann sakar Lilju Mósesdóttur alþingismann um að grafa undan mannorði sínu.

Í bréfi sínu, sem stílað er á Lilju, gerir Jóhannes athugasemdir við ummæli sem Lilja lét hafa eftir sér opinberlega og snertu málefni Haga og aðkomu hans að félaginu til framtíðar.

Jóhannes áréttar í bréfinu að hann sé ekki grunaður um refsiverða háttsemi og sé ekki til rannsóknar. Hann hafi hvergi verið kallaður til yfirheyrslu né fengið fyrirspurn frá nokkrum aðila. Og segist því reikna með að hafa sömu réttarstöðu og Lilja Mósesdóttir sjálf. Orðrétt segir hann síðan: „Nú ber svo við að ég upplifi í annað sinn pólitískar ofsóknir á hendur mér. [...] Ég bið þig og nefndarmenn að íhuga réttarstöðu mína og ígrunda á hvaða leið þið eruð."

Nefndarmenn í viðskiptanefnd sem fréttastofa ræddi við sögðu að ekki mætti skilja bréfið öðruvísi en að Jóhannes teldi að Lilja hefði vegið að mannorði sínu.

Jóhannes Jónsson sagðist í samtali við fréttastofu hafa sent fjórtán þingmönnum afrit af bréfinu. Hann sagði að tilgangur bréfsins hafi verið að afla skýringa á ákveðnum atriðum sem Lilja hefði sagt í fjölmiðlum, en Jóhannes kvaðst hafa ítrekað reynt að hafa samband við Lilju og hún ekki svarað. Hann sagði að sér þætti merkilegt að jafnréttissinninn Lilja skyldi ekki vilja svara skilaboðum sínum, þar sem hann væri með tvö þúsund manns í vinnu og meirihluti þeirra væri konur.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×