Innlent

Óvíst hvort lífsýni finnist á meintu morðvopni

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Óvíst er hvort lífsýni finnist á veiðihnífnum sem lögregla telur að Gunnar Rúnar Sigurþórsson hafi notað til að bana Hannesi Þór Helgasyni. Hnífurinn var sendur til Svíþjóðar í gærkvöldi.

Lögreglan verst allra frétta af tegund hnífsins sem 15 ára gamlir piltar fundu við smábátahöfnina í Hafnarfirði laust fyrir helgi og afhentu lögreglunni á laugardagskvöldið. Lögreglan telur sig hafa fundið morðvopnið, en hnífurinn passar við lýsingu og hugmyndir lögreglunnar og fannst á staðnum sem Gunnar Rúnar sagðist hafa kastað honum. Fréttavefur Mbl greindi frá því að um veiðihníf væri að ræða, hefðbundinn útivistarhníf.

Hnífurinn var sendur til Svíþjóðar í gærkvöldi þar sem framkvæmd verður lífsýnarannsókn og er það algjört forgangsverkefni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er lögreglan full meðvituð um að hnífurinn hafði legið í söltu vatni svo vikum skipti áður en hann fannst, auk þess sem ungmennin sem fundu hnífinn höfðu haft hann undir höndum í nokkra daga áður en hann var afhentur lögreglu. Björgvin Björgvinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, vill hins vegar ekki svara því hvort ungmennin hafi þrifið hnífinn eða hvort saltur sjórinn í höfninni kunni að hafa spillt sönnunargögnum.

Eins og fréttastofa hefur greint frá hefur lögreglan engin haldbær sönnunargögn annað en játningu Gunnars Rúnars því ekki liggja fyrir niðurstöður úr lífsýnarannsóknum á blóði sem fannst á skóm sakborningsins. Ekki lágu fyrir neinar nýjar niðurstöður úr lífsýnarannsóknum í morgun. Gunnar Rúnar verður í skýrslutökum áfram í dag, en hann hefur setið í einangrun á Litla Hrauni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×